Aldrei verið skorað jafn snemma

Shane Long fagnar markinu í kvöld.
Shane Long fagnar markinu í kvöld. AFP

Shane Long setti nýtt met í efstu deild ensku knattspyrnunnar í kvöld þegar hann skoraði eftir aðeins sex sekúndna leik fyrir Southampton gegn Watford.

Það hefur aðeins einu sinni áður gerst að farið hafi verið undir 10 sekúndurnar í leik í deildinni, og gildir þá einu hvort átt sé við úrvalsdeildina frá 1992 eða árin 103 þar á undan. Árið 2000 skoraði Ledley King varnarmaður Tottenham eftir 9,9 sekúndur í leik liðsins gegn Bradford City.

Annar leikmaður Tottenham komst næst því árið 2017 en þá skoraði Christian Eriksen fyrir Tottenham gegn Manchester United eftir aðeins 11 sekúndur.

Uppfært:
Á vef ensku úrvalsdeildarinnar segir að markið hafi komið eftir 7,69 sekúndur. Enskum fjölmiðlum ber ekki saman um hvort um 6 eða 7 sekúndur sé að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert