De Gea á förum til Frakklands?

David de Gea hefur átt á brattann að sækja í …
David de Gea hefur átt á brattann að sækja í undanförnum leikjum. AFP

David de Gea, markmaður enska knattspyrnufélagsins Manchester United, gæti verið á förum í frönsku 1. deildina en það eru enskir fjölmiðlar sem greina frá þessu. De Gea verður samningslaus sumarið 2020 og hefur Spánverjinn ekki skrifað undir nýjan samning við félagið.

De Gea vill fá í kringum 350.000 pund á viku en það er upphæð sem United er ekki tilbúið að borga. Enskir fjölmiðlar greina frá því að franska stórliðið PSG hafi mikinn áhuga á De Gea og vilji fá hann til Parísar.

Þá er franska félagið einnig sagt tilbúið að gangast við launakröfum leikmannsins en samkvæmt enskum miðlum ætlar PSG að bjóða 60 milljónir punda í markmanninn. De Gea hefur gert sig sekan um mistök í undanförnum leikjum liðsins og er United sagt vilja losna við hann á meðan þeir fá eitthvað fyrir hann.

De Gea kom til Manchester United frá Atlético Madrid sumarið 2011 og hefur spilað tæplega 300 leiki fyrir félagið í öllum keppnum. Hann átti á brattann að sækja hjá United á sínum fyrstu árum hjá félaginu en undanfarin ár hefur hann verið besti leikmaður liðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert