United reyndi við van Dijk

Virgil van Dijk og Jürgen Klopp fara yfir málin eftir …
Virgil van Dijk og Jürgen Klopp fara yfir málin eftir 2:0-sigur liðsins gegn Cardiff um síðustu helgi. AFP

Enska knattspyrnufélagið Manchester United reyndi að kaupa Virgil van Dijk í janúar 2018 en það eru enskir fjölmiðlar sem greina frá þessu. United sendi inn formlega fyrirspurn til Southampton en þá var leikmaðurinn mættur í læknisskoðun hjá Liverpool.

Liverpool borgaði 75 milljónir punda fyrir varnarmanninn og er hann dýrasti varnarmaður heims í dag. Van Dijk hefur heldur betur slegið í gegn á Anfield en hann var valinn leikmaður ársins í ensku úrvalsdeildinni í vikunni af leikmönnum deildarinnar.

Liverpool er í harðri baráttu í bæði ensku úrvalsdeildinni sem og í Meistaradeild Evrópu en van Dijk hefur verið algjör lykilmaður í liðinu á leiktíðinni. United leitar enn þá að miðverði en félagið er sagt ætla að styrkja þá stöðu hjá sér í sumar.

Manchester City hafði einnig mikinn áhuga á því að fá van Dijk en svo fór að lokum að leikmaðurinn valdi Liverpool. Miðvörðurinn er 27 ára gamall en hann hefur byrjað alla 35 leiki Liverpool á tímabilinu þar sem hann hefur skorað þrjú mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert