Gagnrýnir stjörnur United harðlega

Wayne Rooney er markahæsti leikmaður í sögu Manchester United með …
Wayne Rooney er markahæsti leikmaður í sögu Manchester United með 253 mörk í 559 leikjum fyrir félagið. AFP

Wayne Rooney, fyrrverandi fyrirliði Manchester United og markahæsti leikmaður í sögu félagsins, er ekki ánægður með stórstjörnur félagsins þessa dagana. United endaði í sjötta sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 66 stig og missir þar af leiðandi af Meistaradeildarsæti en Rooney segir að leikmenn liðsins séu ekki með hausinn á réttum stað.

„Leikurinn hefur breyst mikið á undanförnum árum, líkt og allt samfélagið. Samfélagsmiðlar eru inn í dag og leikmenn eru duglegir að birta myndir af nýjustu fatalínu sinni og nýjustu rakspírunum sínum og öllu því sem þeir eru að reyna koma á framfæri. Menn hika hvergi og birta svona myndir á Instagram eftir tapleiki sem er í raun ótrúlegt,“ sagði Rooney í samtali við Telegraph.

„Þegar stuðningsmennirnir benda á þetta og spyrja sig af hverju menn séu eiginlega að pósta svona hlutum eftir slaka frammistöðu er alltaf bent á einhvern annan eins og fólkið sem á að vera stýra samfélagsmiðlunum fyrir þá. Takið smá ábyrgð á gjörðum ykkar því þetta fólk vinnur jú fyrir ykkur. Ég er með fólk sem sér um mína samfélagsmiðla og þeir birta ekkert án míns samþykkis.“

„Það eru allt of margir leikmenn Manchester United sem virðast vera leita að sökudólgi fyrir öllu, slæmu gengi eða óviðeigandi mynd á Instagram. Þeir eru að firra sig allri ábyrgð, alltaf, og þannig hefur það ekki verið áður hjá Manchester United,“ sagði pirraður Rooney ennfremur en það er mikið starf framundan hjá Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóra liðsins, sem ætlar sér að hreinsa til í leikmannahópi liðsins í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert