Liverpool þarf að styrkja sig

Jürgen Klopp og lærisveinar hans í Liverpool þurfa að styrkja …
Jürgen Klopp og lærisveinar hans í Liverpool þurfa að styrkja hópinn í sumar að mati Jamie Carragher. AFP

Jamie Carragher, fyrrverandi leikmaður enska knattspyrnufélagsins Liverpool, telur að félagið þurfi að styrkja leikmannahópinn í sumar. Carragher starfar í dag sem sparkspekingur hjá Sky Sports og fylgist því vel með boltanum en Liverpool endaði í öðru sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 97 stig, einu stigi minna en Manchester City, sem var að vinna deildina annað árið í röð.

„Ég held að Liverpool vanti varnarmann, góðan bakvörð, sem getur spilað bæði hægri og vinstra megin. Trent Alexander-Arnold og Andy Robertson eru báðir frábærir bakverðir en ef þeir meiðast þá er enginn til þess að hlaupa í skarðið fyrir þá. James Milner og Jordan Henderson hafa leyst þessar stöður í fjarveru þeirra,“ sagði Carragher í samtali við Liverpool Echo.

„Milner og Henderson standa sig alltaf vel, sama í hvaða stöðu þeir eru látnir spila en okkur vantar betri varamenn fyrir bakverðina okkar sem eru alvöru bakverðir. Liverpool vantar líka öflugan sóknarmann sem er á pari við Firmino, Mané og Salah. Við þurfum ekki framherja held ég en að fá annan, svipaðan leikmann og Mané, myndi gera mikið fyrir liðið,“ sagði Carragher ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert