Beckham tryllti lýðinn á Old Trafford

David Beckham fagnar á Old Trafford í dag.
David Beckham fagnar á Old Trafford í dag. AFP

Sir Alex Ferguson sneri aftur á hliðarlínuna og Ole Gunner Solskjær var einn þeirra sem skoraði er Manchester United lagði Bayern München að velli á Old Trafford í dag, 5:0.

Um var að ræða endurfund liðanna sem börðust eftirminnilega um Evrópumeistaratitilinn fyrir 20 árum síðan þegar United vann Bayern í frægum leik á Nývangi á Spáni. Leikurinn í dag var haldinn til að minnast þessa leiks sem og að safna fé fyrir góðgerðarstörf félaganna.

Eins og frægt er orðið var það mark Solskjær í uppbótartíma sem tryggði United sögulega þrennu í Barcelona en félagið er enn það eina á Englandi sem hefur unnið efstu deild, enska bikarinn og Meistaradeildina á sömu leiktíð. Það var því við hæfi að Norðmaðurinn braut ísinn í dag en mark hans kom strax á fjórðu mínútu.

Um 60 þúsund áhorfendur Old Trafford fögnuðu núverandi knattspyrnustjóra sínum vel en engum var þó fagnað meira en David Beckham, sem fékk standandi lófaklapp í hvert sinn sem hann tók hornspyrnu.

Dwight Yorke bætti við öðru marki áður en Nicky Butt og Louis Saha skoruðu og að lokum var það enginn annar en David Beckham sem rak smiðshöggið á veisluna í Manchester með laglegu marki rétt fyrir leikslok.

Sir Alex Ferguson var á hliðarlínunni hjá United.
Sir Alex Ferguson var á hliðarlínunni hjá United. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert