United ekki á höttunum eftir De Ligt

Matthijs de Ligt
Matthijs de Ligt AFP

Manchester United er ekki á höttunum eftir knattspyrnumanninum hollenska, Matthijs De Ligt, samkvæmt heimildum Sky Sports en hann var á dögunum sagður á óskalista félagsins.

De Ligt er 19 ára gamall varnarmaður og fyrirliði Ajax í Hollandi en hann er einn þeirra sem lék frábærlega með liðinu sem fór alla leið í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu ásamt því að verða hollenskur meistari.

Talið er afar líklegt að hann sé á förum frá Ajax í sumar en forráðamenn United telja nær öruggt að hann fari til Barcelona á Spáni. Því ætlar United ekki að eyða púðri í að reyna lokka hann til Englands.

mbl.is