„Mér leið betur á Ítalíu“

Lucas Torreira hefur gengið illa að aðlagast lífinu á Englandi.
Lucas Torreira hefur gengið illa að aðlagast lífinu á Englandi. AFP

Lucas Torreira, miðjumaður enska knattspyrnufélagsins Arsenal, viðurkennir að honum líði ekkert sérstaklega vel í London en hann gekk til liðs við Arsenal frá Sampdoria síðasta sumar. Torreira spilaði vel fyrir Arsenal á nýafstaðinni leiktíð og skoraði tvö mörk og lagði upp önnur tvö í 34 leikjum í ensku úrvalsdeildinni þrátt fyrir að spila sem varnarsinnaður miðjumaður.

„Það eru ekki margir hlutir sem mér líkar við á Englandi ef ég á að vera hreinskilinn. Mér leið betur á Ítalíu, menningin á Englandi er allt öðruvísi og þetta er stórt land. Ég er ekki góður í ensku og ég á í ákveðnum vandræðum með að tjá mig við liðsfélaga mína og fólkið á Englandi. Það er erfitt að búa einhvers staðar þegar maður kann ekki tungumálið,“ sagði leikmaðurinn í samtali við úrúgvæska fjölmiðla.

Arsenal borgaði 27 milljónir punda fyrir miðjumanninn síðasta sumar en hann á fjögur ár eftir af núverandi samningi sínum við enska liðið. Arsenal endaði í fimmta sæti ensku úrvalsdeildarinnar í vor og mun því leika í Evrópudeildinni á næstu leiktíð en liðið ætlar sér stóra hluti á leikmannamarkaðnum í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert