Bale gæti haft áhrif á félagaskipti Pogba

Paul Pogba er áfram á óskalista Real Madrid.
Paul Pogba er áfram á óskalista Real Madrid. AFP

Paul Pogba, miðjumaður enska knattspyrnufélagsins Manchester United er ennþá á óskalista spænska stórliðsins Real Madrid en það eru spænskir fjölmiðlar sem greina frá þessu. Pogba hefur verið sterklega orðaður við brottför frá United í allt sumar en hann greindi sjálfur frá því í byrjun sumars að hann vildi nýja áskorun á ferli sínum.

Í fyrstu var talið að Pogba væri á leið til Juventus en ítalska stórliðið útilokaði það á dögunum að Pogba væri að snúa aftur til Ítalíu. Samkvæmt fréttum á Spáni vill Zinedine Zidane, knattspyrnustjóri Real Madrid ólmur fá Pogba til Spánar, en ef það á að gerast þarf Real Madrid að losa sig við Gareth Bale fyrst.

Bale er með samning við Real Madrid til ársins 2022 en hann er sagður þéna í kringum 500.000 pund á viku hjá spænska stórliðinu. Bale er ekki að drífa sig í burtu en Zidane vill losna við Walesverjann sem allra fyrst, meðal annars til þess að ryðja veginn fyrir Pogba. Real Madrid þarf að borga í kringum 120 milljónir punda fyrir Pogba sem kostaði United 89 milljónir punda sumarið 2016.

mbl.is