Solskjær kemur á óvart með Sánchez

Ole Gunnar Solskjær.
Ole Gunnar Solskjær. AFP

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, sat fyrir svörum á fréttamannafundi í morgun fyrir leik United og Wolves í ensku úrvalsdeildinni á mánudagskvöld.

Solskjær svaraði meðal annars fregnum um að félagið sé að róa að því öllum árum að selja Alexis Sánchez áður en lokað verður fyrir félagaskipti annars staðar í Evrópu um mánaðamót. Norðmaðurinn gaf hins vegar lítið fyrir það og þann fréttaflutning sem hefur verið í gangi og talaði beint til blaðamanna.

„Hann hefur ekki verið settur í varaliðið, að sjálfsögðu ekki. Alexis er mikill atvinnumaður og vill vera hluti af mínu liði. Við erum ekki með marga sóknarmenn í liðinu og hann mun örugglega spila mun meira en þið mynduð halda. Við búumst við því að hann standi sig vel. Hann er að æfa af krafti og gerir mikið aukalega og hann mun smátt og smátt komast í betra form,“ sagði Solskjær, en Sánhcez hefur verið að glíma við meiðsli í sumar.

Solskjær talaði einnig um hvað hann sé ánægður að vera með samkeppnishæfan leikmannahóp.

„Hver einasti leikur er púsluspil. Síðast komum við ekki [Chris] Smalling, Fred, Alexis og [Phil] Jones í leikmannahópinn. Þetta er púsluspil í öllum stöðum, en það er bara jákvætt fyrir mig. Allir hafa æft vel í vikunni og þeir leikmenn sem ekki hafa spilað hafa sýnt að þeir vilji sanna sig,“ sagði Solskjær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert