Ákvörðun sem var ekki tekin með hjartanu

Jürgen Klopp og Philippe Coutinho á góðri stundu en Klopp …
Jürgen Klopp og Philippe Coutinho á góðri stundu en Klopp tók þá ákvörðun að fá brassann ekki aftur til félagsins. AFP

Philippe Coutinho skrifaði í gær undir eins árs lánssamning við þýska knattspyrnufélagið Bayern München. Coutinho kemur til félagsins frá Barcelona en Bayern þarf að borga spænska félaginu 8 milljónir evra fyrir þjónustu leikmannsins í vetur, ásamt því að borga brassanum 250.000 pund á viku í laun.

Coutinho gekk til liðs við Barcelona frá Liverpool í janúar 2018 en spænska félagið borgaði 142 milljónir punda fyrir sóknarmanninn. Coutinho vildi sjálfur snúa aftur til Liverpool, þegar það varð ljóst að Barcelona vildi losna við hann en Jürgen Klopp, stjóri Liverpool, tók að lokum ákvörðun um að félagið þyrfti ekki á leikmanninum að halda.

„Það eru nokkrar ástæður fyrir því að Jürgen Klopp ákvað að sækjast ekki eftir starfskröftum Coutinho,“ segir í umfjöllun James Pearce fyrir The Athletic um málið. „Í fyrsta lagið hefði það kostaði Liverpool 21 milljón punda að fá Coutinho á láni í eitt tímabil. Bæði Klopp og Michael Edwards, yfirmaður íþróttamála hjá Liverpool, voru sammála um að þetta væri of há upphæð fyrir leikmanninn sem gat lítið á síðustu leiktíð.“

„Í öðru lagi fór Klopp vel og vandlega yfir hvort það væri pláss í byrjunarliðinu fyrir Coutinho og svarið við þeirri spurningu var líka nei. Klopp var ánægður með hópinn og þá vonaðist hann til þess að bæði Naby Keita og Alex Oxlade-Chamberlain myndu stíga upp í vetur sem sóknartengiliðir og það var því tilgangslaust að bæta inn þriðja leikmanninum í þessa stöðu.“

„Í þriðja og síðasta lagi var Klopp afar sáttur með þróun liðsins eftir að Coutinho yfirgaf félagið. Þegar Coutinho var upp á sitt besta hjá Liverpool leituðu aðrir leikmenn liðsins of oft að Coutinho og ætluðust til þess að hann myndi búa eitthvað til þegar illa gekk. Eftir að Coutinho fór stigu aðrir leikmenn liðsins upp. Ákvörðunin um að fá Coutinho var tekin með höfðinu, ekki hjartanu,“ segir í umfjöllun Pearce um málið.

Philippe Coutinho skoraði 54 mörk í 201 leik fyrir Liverpool …
Philippe Coutinho skoraði 54 mörk í 201 leik fyrir Liverpool á árunum 2013 til ársins 2018. AFP
mbl.is