Þurfti aðstoð frá Google við komuna á Anfield

Andy Carroll náði sér aldrei almennilega á strik í herbúðum …
Andy Carroll náði sér aldrei almennilega á strik í herbúðum Liverpool og skoraði 11 mörk í 58 leikjum fyrir félagið. Ljósmynd/Glyn Kirk

Andy Carroll, framherji Newcastle í ensku úrvalsdeildinni, varð dýrasti knattspyrnumaður Englands árið 2011 þegar Liverpool borgaði Newcastle 35 milljónir punda fyrir leikmanninn. Carroll skrifaði undir hjá Liverpool á lokadegi félagaskiptagluggans en hann er uppalinn hjá Newcastle og samdi aftur við félagið í sumar þegar hann kom á frjálsri sölu frá West Ham.

Carroll náði sér aldrei á strik hjá Liverpool, meðal annars vegna meiðsla, og viðurkennir að hann hafi ekki þekkt stóran hluta leikmannahópsins þegar hann kom til Liverpool árið 2011. „Þegar að ég var hjá Newcastle þá gerði ég nánast allt nema horfa á fótbolta í sjónvarpinu,“ sagði Carroll í samtali við heimasíðu Newcastle.

„Þar af leiðandi þekkti ég aldrei neina leikmenn. Þegar ég var í þyrlunni á leiðinni til Liverpool fór ég að hugsa um hvaða leikmenn í Liverpool-liðinu ég kannaðist við. Ég vissi hver Steven Gerrard var og Jamie Carragher. Aðra þekkti ég ekki og umboðsmaður minn, sem ferðaðist með mér til Liverpool, rétti mér símann sinn og sagði mér að fara á google.com sem og ég gerði,“ sagði Carroll.

mbl.is