Með sambærilega framlínu og Liverpool

Pierre-Emerick Aubameyang hefur farið mjög vel af stað í ensku …
Pierre-Emerick Aubameyang hefur farið mjög vel af stað í ensku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð og er með tvö mörk í tveimur leikjum. AFP

Pierre-Emerick Aubameyang, framherji enska knattspyrnufélagsins Arsenal, hefur mikla trú á framlínu liðsins. Arsenal keypti Nicolas Pépé af Lille í sumar en enska félagið borgaði 72 milljónir punda fyrir landsliðsmann Fílabeinsstrandarinnar. Aubameyang telur að með tilkomu Pépé sé sóknarlína liðsins á pari við sóknarlínu Liverpool en liðin mætast í stórleik ensku úrvalsdeildarinnar á morgun.

„Það er margt sameiginlegt með sóknarlínu okkar og Liverpool,“ sagði Aubameyang í samtali við Sky Sports. „Það er mikill hraði á köntunum hjá okkur í mér og Pépé, líkt og hjá Liverpool þar sem þeir Sadio Mané og Mohamed Salah spila. Lacasette er svo frábær í að halda boltanum upp á topp og koma honum í spil líkt og Roberto Firmino gerir fyrir Liverpool og sóknarlínan okkar er því nokkuð sambærileg við Liverpool.“

Bæði Liverpool og Arsenal hafa farið mjög vel af stað í ensku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð en liðin eru í efstu sætum deildarinnar með sex stig eða fullt hús stiga eftir fyrstu tvær umferðirnar. Liverpool hefur unnið góða sigra gegn Norwich og Southampton í fyrstu leikjum sínum á meðan Arsenal hefur lagt bæði Newcastle og Burnley að velli.

mbl.is