Ég hef sjálfur klikkað á vítum

Ole Gunnar Solskjær á hliðarlínunni í dag.
Ole Gunnar Solskjær á hliðarlínunni í dag. AFP

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, var skiljanlega vonsvikinn eftir 1:2-tap fyrir Crystal Palace á heimavelli í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Patrick van Aanholt skoraði sigurmark Palace í uppbótartíma. 

„Þeir skoruðu tvö og við bara eitt. Við kláruðum færin ekki nægilega vel og þeir skoruðu tvö létt mörk. Við vorum betri í seinni hálfleik en það gekk illa að hitta á markið. Við stjórnuðum leiknum," sagði Solskjær við BBC eftir leik. 

„Við hefðum átt að gera betur á síðustu fimm mínútunum. Við vörðumst mjög illa á köflum í dag og að lokum kostaði það okkur. Við náðum heldur ekki að reyna nægilega mikið á markmanninn þeirra og það kostaði okkur líka."

Marcus Rashford klikkaði á vítaspyrnu í stöðunni 1:0 fyrir Palace, en Paul Pogba klikkaði á vítaspyrnu gegn Wolves í síðustu umferð.

„Tveir leikir og tvær vítaspyrnur sem við nýtum ekki. Það er hluti af leiknum. Ég hef sjálfur klikkað á vítum. Staðan væri öðruvísi ef við hefðum nýtt vítin okkar. Við verðum að halda áfram að komast í góðar stöður í vítateignum og þá fáum við enn fleiri víti sem við munum skora úr," sagði Solskjær. 

mbl.is