Á eftir að blómstra með Manchester United

Daniel James fagnar marki með United ásamt liðsfélögum sínum.
Daniel James fagnar marki með United ásamt liðsfélögum sínum. AFP

Ryan Giggs landsliðsþjálfari Wales í knattspyrnu segir að velski landsliðsmaðurinn Daniel James muni blómstra með liði Manchester United en kantmaðurinn gekk í raðir United frá Swansea í sumar.

„Þetta er félag sem elskar kantmenn. Við vitum öll hvað Daniel er fær um að gera og hvað hann hefur gert sérstaklega á síðustu átta eða níu mánuðum. Hann verður bara betri og betri. Hann er hjá réttu félagi. Ole Gunnar mun líta eftir honum á réttan hátt og hann veit hvenær hann á að tefla honum fram.

Hann hefur byrjað ferill sinn hjá Manchester United frábærlega og hann hefur líka verið frábær í leikjum Wales,“ sagði Giggs við fréttamenn í gær en Wales mætir Aserbaídsjan í undankeppni EM í Cardiff í kvöld þar sem Daniel James verður í eldlínunni.

Daniel James hefur verið besti leikmaður United í byrjun leiktíðar en hann hefur skorað þrjú mörk í fjórum leikjum liðsins í deildinni.mbl.is