Smalling með í huga að ílengjast hjá Roma

Chris Smalling leikur með Roma á leiktíðinni.
Chris Smalling leikur með Roma á leiktíðinni. Ljósmynd/Roma

Enski miðvörðurinn Chris Smalling sér alveg fyrir sér að vera hjá ítalska liðinu Roma til frambúðar en hann var lánaður til Roma frá Manchester United út leiktíðina.

„Þetta var tækifæri sem kom til mín sem ég var mjög spenntur fyrir. Ég er að fá tækifæri hjá stóru liði og ef félagið verður ánægt og ég líka þá get ég alveg séð framtíðina fyrir mér á Ítalíu. Ég hef alltaf verið spenntur fyrir ítölsku A-deildinni,“ sagði Smalling við fréttamenn í dag.

„Á Englandi eru ekki margir leikmenn sem fara utan en ég hef alltaf haft löngun innst inni til að upplifa þetta og fá tækifæri til að fara í stórt félag með stórar vonir,“ sagði Smalling.

Smalling, sem er 31 árs gamall og á 31 leik að baki með enska landsliðinu, hefur spilað 323 leiki með Manchester United á þeim níu árum sem hann hefur spilað með liðinu. Hann hefur í tvígang orðið enskur meistari með United.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert