Drinkwater frá keppni eftir líkamsárás

Danny Drinkwater, til hægri.
Danny Drinkwater, til hægri. AFP

Knattspyrnumaðurinn Danny Drinkwater verður frá keppni í einhvern tíma eftir að sex menn réðust á hann fyrir utan næturklúbb í Manchester. Var Drinkwater töluvert ölvaður þegar atvikið átti sér stað. 

Drinkwater var bólginn í andlitið og meiddur á ökkla eftir árásina, en mennirnir reyndu að fótbrjóta miðjumanninn. Bresk götublöð greina frá því að Drinkwater hafi verið að tala við kærustu Kgosi Ntlhe, leikmanns Scunthorpe í ensku D-deildinni, skömmu áður en mennirnir réðust á hann. 

Drinkwater hefur ekki leitað til lögreglu vegna málsins, en hann verður frá keppni í einhverjar vikur á meðan hann jafnar sig á ökklameiðslunum. Leikmaðurinn er að láni hjá Burnley frá Chelsea og hefur Chelsea gefið það út að Burnley sjái fyrst og fremst um mál Drinkwaters. 

Sky greinir frá því að Sean Dyche, knattspyrnustjóri Burnley, sé ósáttur við Drinkwater og ætli að funda með honum í vikunni.

Ekki stendur þó til að rifta lánssamningnum. Drinkwater var handtekinn fyrir ölvunarakstur fyrir fjórum mánuðum og hefur átt erfitt síðan hann kom til Chelsea frá Leicester fyrir þremur árum. 

mbl.is