Varð að yfirgefa Arsenal

Henrikh Mkhitaryan er farinn til Ítalíu.
Henrikh Mkhitaryan er farinn til Ítalíu. AFP

Armenski knattspyrnumaðurinn Henrikh Mkhitaryan yfirgaf herbúðir Arsenal til að njóta þess að spila fótbolta aftur, en hann gekk í raðir Roma að láni frá Arsenal í síðasta mánuði. 

Mkhitaryan kom til Arsenal á síðasta ári frá Manchester United, sem fékk Alexis Sánchez í hans stað, en þeir hafa báðir valdið nokkrum vonbrigðum eftir skiptin. Mkhitaryan skoraði aðeins átta mörk í 39 deildarleikjum með Arsenal. 

„Ég verð að njóta þess að spila fótbolta, hvar sem það er. Ég var ekki lengur ánægður á Englandi og þurfti að yfirgefa Arsenal. Kannski passaði ég ekki í enska boltann og þessi skipti voru góð,“ sagði Armeninn á blaðamannafundi hjá landsliði Armeníu. 

„Það er ekki skref til baka að fara til Ítalíu. Fótboltinn hérna er virkilega góður og ég þurfti öðruvísi umhverfi,“ bætti hann við. 

mbl.is