Rodgers skilur ákvörðun Maguire

Harry Maguire
Harry Maguire AFP

Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Leicester, segist skilja ákvörðun varnarmannsins Harry Maguire um að yfirgefa félagið til að ganga til liðs við Manchester United í sumar. Þetta sagði Rodgers á blaðamannafundi sínum í dag en liðin mætast á Old Trafford í ensku úrvalsdeildinni á morgun.

Maguire gekk til liðs við United fyrir metfé, um 80 milljónir punda, en Rodgers segir Manchester-félagið hafa sérstakt aðdráttarafl. „United og Liverpool eru stærstu félögin í landinu. Það eru önnur frábær félög en þessi tvö standa öllum öðrum ofar,“ sagði Norður-Írinn.

„Þegar leikmönnum gefst tækifæri til fara þeir til þessara félaga og upplifa það að spila fyrir þau. Auðvitað skiptir fjárhagslega hliðin líka máli, menn geta tvöfaldað launin sín þarna. Ferill knattspyrnumanns er stuttur og á aldri Harrys er sennilega of erfitt að segja nei við svona tækifæri. Og ég skil það, fullkomlega.“

Þrátt fyrir brottför Maguire er Leicester í þriðja sæti deildarinnar eftir fjóra leiki, enn ósigrað og fyrir ofan United í töflunni sem hefur aðeins unnið einn leik til þessa. Engu að síður hefur Leicester ekki unnið á Old Trafford í 21 ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert