Kom til baka og er orðinn stjarna

Mohamed Salah.
Mohamed Salah. AFP

Chelsea og Liverpool mætast í stórleik 6. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu á morgun og hafa knattspyrnustjórar liðanna rætt leikinn og andstæðinga á blaðamannafundum sínum. Frank Lampard, stjóri Chelsea, nýtti meðal annars tækifærið og hrósaði Mohamed Salah í hástert.

Salah er einn skæðasti sóknarmaður Evrópu í dag en hann hefur skoraði 75 mörk í 111 leikjum fyrir Liverpool. Egyptinn kom til félagsins frá Ítalíu en þar á undan átti hann nokkuð misheppnað ár undir stjórn José Mourinho hjá Chelsea.

„Því miður gekk þetta ekki upp hjá Mo þegar hann var hjá okkur en hann á skilið hrós. Hann fór til Ítalíu, kom til baka og er núna stjarna,“ sagði Frank Lampard við Sky Sports.

„Við vorum með marga góða leikmenn á þessum tíma og hann komst ekki að, hver svo sem ástæðan er. En það var alltaf augljóst að hæfileikarnir voru til staðar,“ bætti hann við en Salah spilaði aðeins 19 leiki fyrir Chelsea áður en hann fór til Roma á Ítalíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert