West Ham skellti slöku liði Man Utd

Pablo Fornals með boltann á milli Ashley Young og Nemanja …
Pablo Fornals með boltann á milli Ashley Young og Nemanja Matic í leiknum í dag. AFP

West Ham vann sanngjarnan 2:0-heimasigur á arfaslöku liði Manchester United í 6. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í dag. Tíu leikmenn Wolves kreistu fram jafntefli gegn Crystal Palace með marki á lokasekúndum leiksins.

Andriy Yarmolenko kom heimamönnum yfir á 44. mínútu og Aaron Cresswell innsiglaði sigurinn með glæsilegu aukaspyrnumarki á 84. mínútu er léttleikandi lið West Ham vann nokkuð sannfærandi sigur.

Gestirnir voru hugmyndasnauðir og bitlausir í sóknarleik sínum og ekki hjálpaði það stöðu liðsins þegar Marcus Rashford fór meiddur af velli snemma í síðari hálfleik. Mikil meiðsli herja nú á leikmannahóp United en liðið hefur farið illa af stað í úrvalsdeildinni til þessa og er aðeins með átta stig eftir sex leiki. West Ham er hins vegar í fjórða sætinu með 11 stig.

Þá gerðu Crystal Palace og Wolves 1:1-jafntefli í Lundúnum. Sjálfsmark Leanders Dendonckers virtist ætla duga heimamönnum til sigurs en gestirnir fengu að auki rautt spald á 73. mínútu þegar Romain Saiss var rekinn af velli með sitt annað gula spjald.

Þeim tókst hins vegar að kreista fram jöfnunarmark á fimmtu mínútu uppbótartímans en það skoraði sóknarmaðurinn Diogo Jota. Wolves er enn án sigurs og í næstneðsta sæti deildarinnar með fjögur stig en Crystal Palace er með átta stig í 12. sæti.

West Ham 2:0 Man. Utd opna loka
90. mín. Fjórar mínútur í uppbótartíma.
mbl.is