Verður Liverpool vísað úr keppni?

Frá viðureign Liverpool og MK Dons.
Frá viðureign Liverpool og MK Dons. AFP

Svo getur farið að Liverpool verði vísað úr ensku deildabikarkeppninni ef í ljós kemur að liðið hafi teflt fram ólöglegum leikmanni í sigrinum gegn MK Dons í 32-liða úrslitunum á miðvikudagkvöldið.

Rannsókn er hafin á því hvort Liverpool hafi teflt fram ólöglegum leikmanni en fjórir táningar voru í byrjunarliði Liverpool í leiknum á móti MK Dons. Ef það kemur í ljós að leikmaðurinn, sem ekki hefur verið nafngreindur, hafi verið ólöglegur geta viðurlögin verið allt frá sekt til þess að vera vísað úr deildabikarkeppninni en Liverpool tekur á móti Arsenal í 16-liða úrslitunum.

Jürgen Klopp, stjóri Liverpool, breytti algjörlega um lið í leiknum við MK Dons frá sigurleiknum gegn Chelsea í deildinni um síðustu helgi og léku fjórir ungir leikmenn sinn fyrsta keppnisleik með því að það voru þeir Caoimhin Kelleher, Rhian Brewster, Herbie Kane, og Harvey Elliott.

„Félagið er meðvitað um hugsanlegt stjórnunaratriði sem snýr að einum leikmanni okkar,“ segir í yfirlýsingu frá Liverpool.

„Við erum að vinna með viðeigandi yfirvöldum til að komast að staðreyndum málsins og munum ekki tjá okkur meira fyrr en þessu ferli er lokið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert