Van Dijk er skepna

Virgil van Dijk er besti varnarmaður sem Tammy Abraham hefur …
Virgil van Dijk er besti varnarmaður sem Tammy Abraham hefur mætt á ferlinum. AFP

Tammy Abraham, framherji enska knattspyrnufélagsins Chelsea, segir að Virgil van Dijk, varnarmaður Liverpool, sé besti varnarmaður sem hann hefur mætt á ferlinum. Van Dijk var valinn leikmaður ársins í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð af leikmönnum deildarinnar og þá varð hann annar í kjöri FIFA á besta leikmanni heims sem fram fór í september.

„Van Dijk er skepna,“ sagði framherjinn í samtali við enska fjölmiðla. „Hann er svo góður í því sem hann gerir og hann er með reynslu líka. Í þau skipti sem við höfum mæst hef ég farið yfir einhverjar brellur sem gætu virkað gegn honum en hann les leikinn svo vel og hefur séð allt þannig að það er hrikalega erfitt að komast fram hjá honum.“

„Hann tekur líka eftir öllum litlum smáatriðum, hreyfingum og öðru. Hvernig ég hreyfi mig í teignum sem dæmi, sumir varnarmenn pæla ekkert í því. Það eina sem þeir eru að hugsa um er boltinn. Hann horfir á boltann en veit samt alltaf hvar ég er líka. Hann veit hvert ég vil fara og hann er aldrei langt undan,“ sagði hinn 22 ára gamli Abraham.

mbl.is