Engar líkur á að Pochettino verði rekinn

Mauricio Pochettino hefur stýrt liði Tottenham frá árinu 2014.
Mauricio Pochettino hefur stýrt liði Tottenham frá árinu 2014. AFP

Engar líkur eru á því að Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri Tottenham, verði látinn taka pokann sinn hjá félaginu en þetta segir Harry Redknapp, fyrrverandi stjóri liðsins. Tottenham hefur ekki byrjað tímabilið á Englandi vel og liðið tapaði 3:0 á útivelli fyrir Brighton í síðustu umferð fyrir landsleikjahlé.

Þá tapaði liðið 7:2 á heimavelli fyrir Bayern München í Meistaradeild Evrópu 1. október og telja margir að argentínski stjórinn gæti fengið sparkið eftir að hafa stýrt liðinu frá árinu 2014. „Það eru engar líkur á því að Pochettino verði rekinn frá Tottenham,“ sagði Redknapp í samtali við enska fjölmiðla.

„Ég veit hreinlega ekki hvort árangurinn hafi verið of góður á undanförnum árum. Ef við horfum á leikmannahóp liðsins í dag þá eiga þeir að vera í efstu þremur sætunum. Ég átti von á því að þeir myndu berjast við Liverpool og City í byrjun tímabilsins en byrjun þeirra á þessari leiktíð hefur valdið mér vonbrigðum,“ bætti Redknapp við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert