Mun rífa upp veskið í janúar

Pep Guardiola gæti þurft að rífa upp veskið í janúar.
Pep Guardiola gæti þurft að rífa upp veskið í janúar. AFP

John Aldridge, fyrrverandi leikmaður enska knattspyrnufélagsins Liverpool, telur að Pep Guardiola, stjóri Manchester City, muni kaupa nýja leikmenn í janúar þegar félagaskiptaglugginn verður opnaður. Meiðsli herja á varnarmenn City en bæði John Stones og Aymeric Laporte eru að glíma við meiðsli.

„City eru veikir varnarlega og Guardiola veit það,“ sagði Aldridge í samtali við Independent. „Liðið hefur nú þegar tapað tveimur leikjum í deildinni til þessa og er átta stigum á eftir toppliði Liverpool. Guardiola hefur sagt að ekki séu til peningar til að kaupa leikmenn í janúar en ég á von á því að það breytist þegar janúar gengur í garð.“

„City vill vinna titla og þeir þurfa að vera samkeppnishæfir. Það er mín tilfinning að Guardiola sé einbeittur á að ná árangri í Meistaradeildinni á þessari leiktíð en þá þarf hann nýja varnarmenn. Ég sé Manchester City alveg eyða 100 milljónum punda þegar janúarglugginn verður opnaður,“ sagði Aldridge.

mbl.is