Lampard fúll út í Frakkana

Frank Lampard, knattspyrnustjóri Chelsea.
Frank Lampard, knattspyrnustjóri Chelsea. AFP

Frank Lampard knattspyrnustjóri Chelsea er ekki ánægður með Didier Dechamps landsliðsþjálfara heimsmeistara Frakka.

Franski miðjumaðurinn N'Golo Kante er meiddur og verður ekki með Chelsea-liðinu þegar það mætir Newcastle í ensku úrvalsdeildinni á morgun.

Kanté átti að vera í byrjunarliði Frakka í leiknum gegn Íslendingum á Laugardalsvellinum fyrir viku síðan en eftir upphitun var ljóst að hann gæti ekki spilað vegna meiðsla í nára.

En í stað þess að leyfa Kanté að snúa aftur til London og komast í meðferð hjá sjúkraþjálfurum Chelsea var Kanté með Frökkunum í París í vikunni og fylgdist með leik Frakka gegn Tyrkjum af varamannabekknum. Lampard er fúll út í Dechamps og franska knattspyrnusambandið fyrir að meina Kanté að fara.

„Kanté er ekki leikfær. Hann glímir við smá vandamál í náranum sem hann fékk í upphitun fyrir fyrri leik Frakka í undankeppninni,“ sagði Lampard á fréttamannafundi í dag.

„Við fengum hann ekki til baka fyrr en eftir seinni leikinn og nú er hann ekki klár í slaginn á morgun. Eftir fyrri leikinn þar sem hann dró sig út úr liðinu var hann prófaður daginn fyrir leikinn á móti Tyrkjum. Það var þá ljóst að hann gæti ekki spila. Hann sat samt á bekknum í leiknum.“

Sjálfur hefur Deschamps kvartað við Lampard hversu lítið Olivier Giroud hefur fengið að spila með Chelsea en hann hefur samanlagt spilað um 20 mínútur í átta leikjum Chelsea í deildinni. Giroud byrjaði inná í leiknum á móti Íslendingum og skoraði sigurmarkið úr vítaspyrnu og hann kom inná í leiknum á móti Tyrkjum og skoraði mark Frakka í 1:1 jafntefli liðanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert