Á toppnum í fyrsta sinn í 13 ár

Alex Neil er að gera frábæra hluti með Preston.
Alex Neil er að gera frábæra hluti með Preston. AFP

Preston skaut sér á topp ensku B-deildarinnar í knattspyrnu með því að leggja Charlton að velli, 1:0, á útivelli í dag. Félagið neitaði Stoke um leyfi til að ræða við knattspyrnustjóra sinn, Alex Neil, í gær og virðist umræðan í kringum hann ekki hafa truflað liðið sem skellti sér á topp deildarinnar í fyrsta sinn í langan tíma.

Í yfirlýsingu sem Preston sendi frá sér í gær var tekið skýrt fram að Stoke myndi undir engum kringumstæðum fá að ræða við Neil sem hefur verið að gera frábæra hluti með liðið. Stoke lét Nathan Jones fara í vikunni og er aðeins fjórum stigum frá fallsæti í sömu deild.

Paul Gallagher skoraði sigurmark leiksins úr vítaspyrnu á 31. mínútu til að senda Preston á toppinn en þar hefur liðið ekki verið í 13 ár. Preston er fyrir ofan Leeds á markatölu eftir 15 umferðir.

mbl.is