Klopp grínaðist með snúna stöðu

Jurgen Klopp kátur í bragði á blaðamannafundi.
Jurgen Klopp kátur í bragði á blaðamannafundi. AFP

Liverpool mun þurfa að leika í tveimur keppnum á sama tíma í desember þegar liðið fer á HM félagsliða í Katar en þarf að mæta Aston Villa í ensku deildabikarkeppninni 17. desember.

Knattspyrnustjórinn Jürgen Klopp sló á létta strengi þegar hann var spurður út í málið eftir sigurinn á Genk í Meistaradeild Evrópu í gærkvöld.

„Við spurðum Aston Villa-menn hvort þeir gætu ekki komið til Katar og við spilað leikinn þar!“

Liverpool sagði í yfirlýsingu að ákvörðunin um dagsetningu leiksins við Villa hefði verið tekin í samráði við Liverpool. Ætlunin virðist því vera að skipta leikmannahópnum upp í tvo hópa til að geta spilað á Englandi og í Katar.

„Við erum með hugmynd um hvernig við gerum þetta en það er of snemmt að ræða það. Við tókum þessa ákvörðun því aðrir kostir kölluðu á fleiri vandamál en lausnir, svo að við erum sáttir. Svona gerum við þetta með eins góðum hætti og hægt er fyrir okkur. Við höfum enn tíma til að hugsa aðeins um þetta og mikilvægari hluti til að takast á við fyrst,“ sagði Klopp og bætti við:

„Þetta hljómar eins og okkur sé illa við deildabikarinn en það er ekki satt. Það sem mér líkar ekki er að í undanúrslitunum séu spilaðir tveir leikir í hvoru einvígi. Ég skil það ekki og líkar það illa á þeim tíma þegar mest er að gera. Menn komast bara á HM félagsliða með því að vinna Meistaradeild Evrópu og það gerist nú ekki fimm milljón sinnum. Maður tekur slík tækifæri.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert