Landsliðsþjálfari Norður-Íra tekinn við liði Stoke

Michael O'Neill.
Michael O'Neill. AFP

Michael O’Neill, landsliðsþjálfari Norður-Írlands í knattspyrnu, hefur verið ráðinn knattspyrnustjóri enska B-deildarliðsins Stoke City.

O’Neill stjórnaði sinni fyrstu æfingu í dag og stýrir liðinu gegn Barnsley á morgun. Eftir leikinn fer hann í landsliðsverkefni en Norður-Írar mæta Hollendingum og Þjóðverjum í síðustu tveimur leikjum sínum í undankeppni EM. Ekki er vitað hvort O’Neill verður með Norður-Írum ef þeim tekst að vinna sér sæti í úrslitakeppni EM.

Hann hefur verið við stjórnvölinn hjá norðurírska landsliðinu í tæp níu ár en hjá Stoke bíður hans erfitt verkefni því liðið situr á botni ensku B-deildarinnar.

mbl.is