„Sýnið honum virðingu“ - Bravo í markinu gegn Liverpool

Claudio Bravo fékk rautt spjald eftir að hafa komið inn …
Claudio Bravo fékk rautt spjald eftir að hafa komið inn á sem varamaður gegn Atalanta í vikunni. AFP

Brasilíski markvörðurinn Ederson verður ekki með Englandsmeisturum Manchester City í stórleiknum við Liverpool á Anfield á sunnudaginn, í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Ederson meiddist í leiknum við Atalanta í Meistaradeild Evrópu í vikunni. David Silva er sömuleiðis ekki klár í slaginn vegna meiðsla. Hjá Liverpool eru Jordan Henderson og Virgil van Dijk tilbúnir, eftir að hafa misst af æfingu í vikunni, en Joel Matip, Nathaniel Clyne og Xherdan Shaqiri eru meiddir.

Pep Guardiola mun tefla Sílemanninum Claudio Bravo fram í markinu, en Bravo fékk rautt spjald í leiknum við Atalanta. Þurfti Kyle Walker að standa í markinu síðustu mínútur leiksins og hefur Bravo verið gagnrýndur nokkuð.

„Hann er einstakur markvörður. Hann er landsliðsmarkvörður. Ég er ekki með neinar efasemdir. Af hverju ætti ég ekki að hafa tröllatrú á mínum leikmönnum? Ég sé hann á hverjum degi á æfingum. Við munum ekki tapa vegna Claudio,“ sagði Guardiola á blaðamannafundi í dag.

„Rauða spjaldið um daginn kom vegna þess að við misstum boltann. Sýnið honum virðingu. Hann er toppmarkvörður,“ sagði Guardiola.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert