Mistök hjá Liverpool að reka Rodgers?

Jürgen Klopp og Brendan Rodgers á hliðarlínunni á Anfield í …
Jürgen Klopp og Brendan Rodgers á hliðarlínunni á Anfield í leik Liverpool og Leicester á þessari leiktíð. AFP

John Barnes, fyrrverandi leikmaður enska knattspyrnufélagsins Liverpool, telur að félagið hafi gert mistök þegar það rak Brendan Rodgers úr starfi í október árið 2015. Rodgers er í dag stjóri Leicester í ensku úrvalsdeildinni en liðið situr í öðru sæti deildarinnar með 29 stig, átta stigum minna en topplið Liverpool eftir fyrstu þrettán umferðirnar.

Rodgers var nálægt því að gera Liverpool að Englandsmeisturum tímabilið 2013-14 en þá endaði liðið í öðru sæti ensku úrvalsdeildarinnar, tveimur stigum á eftir Manchester City. Tímabilið 2014-15 endaði Liverpool í sjötta sæti deildarinnar  og eftir slæma byrjun á tímabilinu 2015-16 var Rodgers látinn taka pokann sinn í byrjun október. 

Þjóðverjinn Jürgen Klopp tók við liðinu af Rodgers um miðjan október og gerði liðið að Evrópumeisturum á síðustu leiktíð. „Jurgen var ekki með betri tölfræði en Rodgers á fyrstu tveimur tímabilunum sínum hérna,“ sagði Barnes í samtali við Independent. „Við treystum honum hins vegar og þess vegna fékk hann að halda áfram með liðið.“

„Klopp tók bæði Sturridge og Sakho úr liðinu, eitthvað sem Rodgers vildi gera, en hann fékk aldrei traustið. Þú sérð það á árangri Rodgers með bæði Celtic og Leicester að hann er frábær stjóri. Ég er mjög ánægður með Klopp og það sem hann hefur gert en ef við hefðum haldið tryggð við Rodgers þá hefði hann getað náð sama árangri og Klopp hefur gert,“ bætti Barnes við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert