Aldrei gerst áður í sögu úrvalsdeildarinnar

Ole Gunnar Solskjær og lærisveinar hans í Manchester United þurfa …
Ole Gunnar Solskjær og lærisveinar hans í Manchester United þurfa að fara safna stigum í pokann. AFP

Eftir fjórtán leiknar umferðir í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu trónir Liverpool á toppi deildarinnar með 40 stig. Liverpool er enn taplaust en liðið hefur unnið þrettán leiki og gert eitt jafntefli gegn Manchester United á Old Trafford.

Leicester kemur þar á eftir í öðru sæti deildarinnar með 32 stig, Englandsmeistarar Manchester City er í þriðja sætinu með 29 stig og Chelsea er í fjórða sætinu með 26 stig. José Mourinho og lærisveinar hans Tottenham er svo í fimmta sætinu með 20 stig.

Frá því að enska úrvalsdeildin var stofnuð í núverandi mynd hefur það aldrei gerst að lið, sem er með 20 stig eða minna eftir fyrstu fjórtán umferðirnar, endi í efstu fjórum sætunum. Þetta eru slæmar fréttir fyrir bæði Arsenal og Manchester United.

Arsenal er í áttunda sæti deildarinnar með 19 stig og Manchester United er í níunda sætinu með 18 stig. Efstu fjögur sæti úrvalsdeildarinnar gefa sjálfkrafa þátttöku í Meistaradeild Evrópu þar sem miklar tekjur eru í boði fyrir sterkustu lið Evrópu.

Það er hins vegar nóg eftir af tímabilinu eða 24 umferðir. Það getur ýmislegt gerst en Arsenal er sem stendur sex stigum frá Meistaradeildarsæti á meðan United er sjö stigum frá sæti í Meistaradeildinni.

mbl.is