Wenger tilbúinn að hjálpa Arsenal

Freddie Ljungberg stýrði Arsenal í fyrsta skipti gegn Norwich um …
Freddie Ljungberg stýrði Arsenal í fyrsta skipti gegn Norwich um síðustu helgi. AFP

Freddie Ljungberg, tímabundinn knattspyrnustjóri Arsenal, ætlar að ræða við Arsene Wenger, fyrrverandi stjóra sinn hjá félaginu, og þiggja ráð. Wenger og Ljungberg unnu saman í átta ár hjá Arsenal. 

Wenger er sjálfur reiðubúinn að hjálpa Svíanum. „Ég mun alltaf glaður hjálpa fyrrverandi leikmönnum mínum og mínu gamla félagi. Ef hann vill ræða við mig, þá verð ég klár. Ég vil að félaginu gangi vel og ég veit að Freddie mun gefa allt sitt,“ sagði Wenger við Sky. 

Ljungberg tók vel í hugmyndina á blaðamannafundi í dag. „Ég hef ekki enn talað við hann en það væri mjög gott. Það er mikið að gera, en að tala við Wenger er á listanum mínum. Ég ætla líka að ræða við Sven Göran Erikson.

Hann er mjög skarpur og ég talaði mikið við hann þegar hann var landsliðsþjálfari Englands. Hann lét leikmönnum líða vel og ég hef stolið nokkrum hugmyndum frá honum,“ sagði Ljungberg. 

mbl.is