Úrvalsdeildin skiptir meira máli

Pep Guardiola ræðir við fréttamenn á Maksimir-leikvanginum í Zagreb þar …
Pep Guardiola ræðir við fréttamenn á Maksimir-leikvanginum í Zagreb þar sem lið hans mætir Dinamo í kvöld. AFP

Pep Guardiola knattspyrnustjóri Manchester City verður ekki með sitt sterkasta lið í Zagreb í Króatíu í kvöld en ensku meistararnir mæta þar Dinamo Zagreb í lokaumferð riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu. 

Þeir David Silva, Sergio Agüero og John Stones eru ekki með í för en Guardiola sagði að þeir væru allir meiddir. Hann staðfesti að hinn ungi Phil Foden yrði í byrjunarliðinu en gaf ekki upp annað varðandi liðsskipan sína.

„Það er mikið um meiðsli hjá okkur, við erum með unga leikmenn með í för og við reynum að stilla upp eins sterku liði og við getum. Við erum þegar komnir áfram og í augnablikinu skiptir úrvalsdeildin meira máli en Meistaradeildin," sagði Guardiola  við fréttamenn en City á útileik  gegn Arsenal í úrvalsdeildinni á sunnudaginn.

City hefur þegar tryggt sér efsta sætið í C-riðli keppninnar, er með 11 stig fyrir leiki kvöldsins. Shakhtar Donetsk með 6 stig, Dinamo Zagreb með 5 og Atalanta með 4 stig slást um að fylgja enska liðinu í 16-liða úrslitin.

mbl.is