Kominn í félagið sem hann var feginn að sleppa við

Cenk Tosun, til hægri, í leik með Everton.
Cenk Tosun, til hægri, í leik með Everton. AFP

Cenk Tosun, framherji tyrkneska landsliðsins í knattspyrnu, er kominn til Crystal Palace sem lánsmaður frá Everton og verður hjá Lundúnafélaginu út þetta keppnistímabil.

Tosun hefur mest lítið fengið að gera hjá Everton í vetur og aðeins tvisvar verið í byrjunarliðinu. Hann er þar með kominn í lið sem hann var dauðfeginn að sleppa við að gerast leikmaður hjá fyrir hálfu þriðja ári.

Í janúar 2018 keypti Everton framherjann frá Besiktas fyrir 27 milljónir punda. Hálfu ári fyrr munaði minnstu að hann færi til Englands en þá reyndi Crystal Palace að kaupa hann af Besiktas. Það gekk ekki eftir.

„Varðandi Crystal Palace get ég sagt að ég er afar ánægður með að það gekk ekki upp,“ sagði Tosun í viðtali sumarið 2017.

Nú er hann kominn til Palace og leikur þar undir stjórn Roy Hodgsons til vorsins en Palace er tveimur sætum fyrir ofan Everton í úrvalsdeildinni.

mbl.is