Liverpool án tveggja sterkra í stórleikjunum

James Milner gengur vonsvikinn af velli eftir að hafa tognað …
James Milner gengur vonsvikinn af velli eftir að hafa tognað á upphafsmínútunum í bikarslag Liverpool og Everton. AFP

Jürgen Klopp knattspyrnustjóri Liverpool staðfesti fyrir stundu að James Milner og Naby Keita yrðu ekki með liðinu gegn Tottenham í ensku úrvalsdeildinni á morgun og ljóst væri að þeir myndu líka missa af leiknum gegn Manchester United um aðra helgi.

Milner fór af velli meiddur eftir sjö mínútna leik í bikarleiknum gegn Everton um síðustu helgi en bæði hann og Keita glíma við tognun á fæti. „Þetta eru ólík meiðsli og þeir eru ólíkir einstaklingar. Við getum ekki gefið upp neina tímasetningu enn þá því hún liggur ekki fyrir. Sjúkrateymið okkar gefur þeim græna ljósið þegar þar að kemur en þeir eru ekki með um þessa helgi og ekki þá næstu,“ sagði Klopp.

Hann kvaðst reikna með því að bæði Dejan Lovren og Fabinho myndu hefja æfingar með liðinu á ný í næstu viku en þeir hafa báðir verið frá keppni vegna meiðsla undanfarnar vikur.

mbl.is