Verða skoruð sex mörk í stórleiknum á morgun? (myndskeið)

Tottenham og Liverpool mætast í stórleik helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á morgun klukkan 17.30 og ljóst er að þar fer Liverpool í einn af erfiðari útileikjum sínum á tímabilinu.

Þegar liðin mættust á White Hart Lane veturinn 1997-98 voru sex mörk skoruð í bráðfjörugri viðureign liðanna og í meðfylgjandi myndskeiði er sá leikur rifjaður upp og sýnd glæsimörk frá köppum á borð við Jürgen Klinsmann, David Ginola, Steve McManaman og Paul Ince.

Liverpool var enn með í baráttu um meistaratitilinn þegar þessi leikur fór fram en liðið hafnaði í þriðja sæti deildarinnar á eftir Arsenal og Manchester United. Tottenham var hins vegar í fallhættu og lauk tímabilinu í 14. sæti, aðeins fjórum stigum ofar en Guðni Bergsson og samherjar í Bolton sem máttu sætta sig við 18. sætið og fall ásamt Barnsley og Crystal Palace.

Leikurinn á morgun er sýndur í beinni útsendingu á Símanum Sport.

mbl.is