Kane slakar á með Össuri eftir aðgerð

Harry Kane í leiknum á nýársdag.
Harry Kane í leiknum á nýársdag. AFP

Harry Kane, framherji Tottenham og landsliðsfyrirliði Englands, fór í aðgerð í dag eftir að hafa meiðst í leik gegn Southampton á nýársdag. Í stöðufærslu á Twitter í dag sést hann fylgjast með samherjum sínum spila á móti Liverpool í úrvalsdeildinni, en hann lætur fylgja með að aðgerðin hafi gengið vel.

Þegar betur er rýnt í myndina má sjá að Kane notast við íslenskt hugvit við endurhæfinguna, en merki íslenska stoðtækjaframleiðandans Össurar sést mjög vel á myndinni og líklegt að spelkan frá fyrirtækinu verði hluti af endurhæfingarferli Kane næstu vikur.

Samkvæmt upplýsingum fyrir aðgerðina var búist við því að Kane yrði frá keppni fram í apríl vegna meiðslanna og gæti mögulega tekið þátt í síðustu leikjum liðsins á leiktíðinni.

mbl.is