Gomes langt á undan áætlun (myndskeið)

Þegar portúgalski miðjumaðurinn André Gomes hjá Everton ökklabrotnaði í slæmri tæklingu í leik liðsins við Tottenham í nóvember var ekki reiknað með því að hann myndi spila meira með liðinu á þessu tímabili í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

En Gomes er talsvert á undan áætlun og í gær hóf hann æfingar á Finch Farm, æfingasvæði Everton, og var vel tekið þegar hann mætti eins og sjá má á meðfylgjandi myndskeiði frá EvertonTV þar sem m.a. Michael Keane, Fabian Delph og Tom Davies buðu hann velkominn.

Gomes fer þó ekki strax að æfa með liðinu heldur verður í endurhæfingarmeðferð hjá sjúkraþjálfarateymi félagsins næstu vikurnar. 

mbl.is