Meiðslalaus því hann er ekki með vöðva

Riyad Mahrez hefur verið í fantaformi með Manchester City á …
Riyad Mahrez hefur verið í fantaformi með Manchester City á þessari leiktíð. AFP

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, segir að Riyad Mahrez, sóknarmaður City, sé sjaldan meiddur þar sem hann sé ekki með neina vöðva. Mahrez hefur verið í fantaformi í síðustu leikjum City en hann hefur fengið tækifæri í byrjunarliðinu þar sem aðrir leikmenn liðsins hafa verið að glíma við meiðsli.

„Munurinn á þessu tímabili og því síðasta er sá að knattspyrnustjórinn hans kemur betur fram við hann og leyfir honum að spila,“ sagði Guardiola á blaðamannafundi í dag. „Hann fékk sín tækifæri á síðustu leiktíð en kannski fékk hann ekki nóg af þeim. Hann elskar að spila fótbolta og stendur sig alltaf vel.“

„Hann er aldrei meiddur enda ómögulegt fyrir hann að meiðast því hann er ekki með neina vöðva. Hann er ótrúlegur sóknarmaður því í hvert einasta skipti sem hann fær boltann á síðasta þriðjungi vallarins fær maður það á tilfinninguna að hann sé líklegur til þess að valda usla,“ bætti Guardiola við.

Mahrez gekk til liðs við Manchester City frá Leicester sumarið 2018 fyrir 62 milljónir punda. Hann átti ekki fast sæti í liðinu á síðustu leiktíð og kom við sögu í 27 leikjum með City þar sem hann skoraði sjö mörk og lagði upp fjögur. Hann hefur komið við sögu í 18 leikjum með City á þessari leiktíð þar sem hann hefur skorað sjö mörk og lagt upp önnur níu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert