Hefðum átt að skora þrjú í fyrri hálfleik

Jürgen Klopp var kátur í leikslok.
Jürgen Klopp var kátur í leikslok. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, var skiljanlega hæstánægður eftir 2:0-sigurinn á Manchester United í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Liverpool er nú með 16 stiga forskot á toppi deildarinnar. 

„Þetta er mikill léttir. Ég er ánægður með 85-90% af þessum leik. Við vorum glæsilegir. Við stjórnuðum leiknum, sérstaklega í fyrri hálfleik. Orkan hjá okkur á vellinum var ótrúleg. Á venjulegum degi hefðum við skorað þrjú í fyrri hálfleik og við hefðum átt að vera búnir að skora meira snemma í seinni hálfleik,“ sagði Klopp við Sky Sports. 

Staðan var 1:0 þangað til í uppbótartíma þegar Mo Salah skoraði annað markið. „Það eru augljóslega gæði hjá United og þeir náðu að sýna það á köflum. Við gerðum mistök hér og þar, svo leikurinn var opinn. Við skoruðum svo glæsilegt mark í lokin, þetta var mjög góð tilfinning,“ sagði Klopp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert