Sá markahæsti meiddist í fyrri hálfleiknum

Jamie Vardy fylgt af velli í leiknum við West Ham …
Jamie Vardy fylgt af velli í leiknum við West Ham í gærkvöld. AFP

Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Leicester City, kveðst bjartsýnn á að meiðsli Jamie Vardy, markahæsta leikmanns ensku úrvalsdeildarinnar, séu ekki alvarleg og hann verði fljótur að komast inn á völlinn á ný.

Vardy fór af velli vegna meiðsla í fyrri hálfleiknum í gærkvöld þegar Leicester tók á móti West Ham. Það kom ekki að sök því Leicester vann sannfærandi sigur, 4:1.

Vardy hefur skorað 17 mörk í deildinni í vetur, einu marki meira en Sergio Agüero hjá Manchester City sem er næstmarkahæstur. 

„Þetta var ekki tognun aftan í læri, sem er gott. Vonandi verður hann búinn að jafna sig eftir nokkra daga. Jamie er virkilegur lykilmaður í okkar liði en við verðum að spila sem lið ef við ætlum að ná árangri og okkur hefur gengið vel í þeim leikjum þar sem við höfum þurft að vera án hans. En við viljum hann heilan og frískan, hann er svo góður leikmaður og við vonum að þetta sé ekki alvarlegt,“ sagði Rodgers við BBC.

Leicester mætir Brentford á útivelli í ensku bikarkeppninni á laugardaginn og sækir síðan Aston Villa heim á þriðjudag í seinni undanúrslitaleikinn í deildabikarnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert