Þetta er óverjandi - það þarf að gera breytingar

Auðu sætin voru mörg á Old Trafford á lokamínútum leiksins …
Auðu sætin voru mörg á Old Trafford á lokamínútum leiksins við Burnley í gærkvöld. AFP

Rio Ferdinand, einn besti varnarmaðurinn í sögu Manchester United og leikmaður liðsins í tólf ár, kvaðst vera miður sín yfir því sem hann sá á Old Trafford í gærkvöld þegar liðið beið lægri hlut fyrir Burnley, 0:2, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Ferdinand starfar sem sjónvarpsmaður hjá BT Sport og hann sagði þar eftir leikinn að hann skammaðist sín fyrir liðið.

„Ég horfði á fólk standa upp í stúkunni á 84. mínútu og ganga út. Þetta hef ég aldrei nokkurn tíma séð á þessum velli. Að sjá svipinn á fólkinu — þetta var skammarlegt. Ég sit hér og er miður mín. Forráðamenn liðsins verða að gera breytingar. Þetta er óverjandi,“ sagði Ferdinand.

Í framhaldi af því hafa verið rifjuð upp orð sem hann lét falla í mars á síðasta ári, eftir að United hafði slegið París SG út úr Meistaradeildinni með fræknum útisigri en þá var ekki búið að staðfesta fastráðninguna á Ole Gunnari Solskjær, hans gamla samherja hjá United, sem þá hafði tekið við liðinu í desember 2018.

„Skrifið samninginn, setjið hann á borðið og látið hann kvitta. Látið hann ráða upphæðinni sem hann setur á blaðið, eftir það sem hann hefur afrekað,“ sagði Ferdinand sem þá var hátt uppi eftir frammistöðu liðsins undir stjórn Norðmannsins.

Í gærkvöld sagði Ferdinand enn fremur: „Ég spilaði með Ole, hann er einn af mínum gömlu liðsfélögum, en úrslitin hafa ekki verið nógu góð. Lykilmenn hafa meiðst, en miðað við þá peninga sem hafa verið settir í liðið var reiknað með meiru af því.“

Solskjær var sjálfur dapur í bragði á fréttamannafundi eftir leikinn í gærkvöld. „Ég er stjórinn og það er mitt að láta liðið virka á vellinum. Þetta er erfiður kafli hjá okkur og ég skil að stuðningsmenn okkar séu vonsviknir. Við verðum að halda áfram að vinna eftir okkar gildum og því sem við trúum á, og vitum að það þýðir ekkert að vorkenna sjálfum okkur,“ sagði Ole Gunnar Solskjær.

mbl.is