Varnarmaður á leið í læknisskoðun hjá Arsenal

Mohamed Salah og Pablo Mari berjast um boltann á HM …
Mohamed Salah og Pablo Mari berjast um boltann á HM félagsliða í síðasta mánuði. AFP

Arsenal er nálægt því að bæta við sig varnarmanni og ganga þar með frá sínum fyrstu félagsskiptum síðan Mikel Arteta tók við knattspyrnustjórastöðunni hjá félaginu.

Arsenal er í viðræðum við brasilíska félagið Flamengo um að fá spænska miðvörðinn Pablo Mari að láni út þetta tímabil með möguleika á að kaupa hann í sumar. Það er Sky Sports sem greinir frá þessu og segir að leikmaðurinn sé væntanlegur í læknisskoðun í Lundúnum í næstu viku. Mari er 26 ára Spánverji sem skrifaði undir hjá Manchester City árið 2016 en spilaði aldrei leik fyrir Englandsmeistarana.

Hann var sendur út að láni þrjú ár í röð og gekk svo til liðs við Flamengo í Brasilíu síðasta sumar þar sem hann vann efstu deildina þar í landi með liðinu. Þá spilaði hann gegn Liverpool á heimsmeistarakeppni félagsliða í síðasta mánuði.

mbl.is