Tottenham með tilboð í hollenskan leikmann

Steven Bergwijn.
Steven Bergwijn. AFP

Tottenham hefur gert tilboð í Hollendinginn Steven Bergwijn sem spilar með PSV í heimalandinu en enska liðið vill styrkja sig nú þegar ljóst er að Christian Eriksen er á förum.

Bergwijn er 22 ára og hefur spilað sjö landsleiki fyrir Holland en hann var ekki í leikmannahóp PSV í dag sem mætti Twente í efstu deildinni þar í landi. Hollenska félagið er sagt vilja halda honum en Sky Sports greinir frá því að leikmaðurinn hafi mikinn áhuga á að spreyta sig í ensku úrvalsdeildinni.

Ekki liggur fyrir hvert kauptilboðið er, en Bergwijn skrifaði undir fjögurra ára samning við PSV í vetur. Hann skoraði 15 mörk fyrir félagið á síðustu leiktíð og spilaði oftast á kantinum.

mbl.is