Líður illa af því að horfa á Manchester United

Manchester United gat fagnað sex mörkum gegn Tranmere í bikarkeppninni …
Manchester United gat fagnað sex mörkum gegn Tranmere í bikarkeppninni í gær en Paul Merson lætur leikmenn liðsins heyra það óþvegið. AFP

Paul Merson, fyrrverandi leikmaður Arsenal og enska landsliðsins í knattspyrnu sem nú starfar m.a. sem sérfræðingur um enska fótboltann, segir að það sé átakanlegt að fylgjast með liði Manchester United um þessar mundir.

Merson fór yfir stöðu mála hjá Manchester United í viðtali við Starsport/Metro og byrjaði á framkvæmdastjóra félagsins en tók síðan leikmennina fyrir, hvern á fætur öðrum.

„Hvernig kemst Ed Woodward upp með að halda svona áfram hjá Manchester United? Mér er sagt að hópurinn hjá þeim hafi kostað 100 milljónum pundum meira en hópurinn hjá Liverpool. Hvernig er það mögulegt? Þetta er ótrúlegt.

Ég horfi af og til á leiki United og það er dapurlegt, mér líður hreinlega illa af því að horfa á liðið. Þetta er ekki Manchester United. Allt of margir leikmenn eru ekki nægilega góðir.

Fred hefur skánað að undanförnu en satt best að segja gat hann ekki orðið verri.

Anthony Martial virðist ekki gera sér grein fyrir því hvaða félag hann er að spila fyrir. Ég er ekki viss um að Victor Lindelöf og Harry Maguire séu nægilega góðir miðverðir í fjögurra manna vörn. Þeir henta betur í þriggja manna. Aaron Wan-Bissaka rakst á vegg. Burnley vildi fá hann.

Daniel James þarf að fara á varamannabekkinn til að jafna sig því sjálfstraustið virðist búið hjá honum og hvað varð af mörkunum sem Jesse Lingard skoraði?

Sagt er að United sakni Scott McTominay þegar hann er ekki með. En hve mörg stórlið bíða í röð eftir því að kaupa hann?

Það er dapurlegt hversu djúpt United hefur sokkið. Sleppum því að ræða um tvö bestu liðin. Sjáið hversu langt á eftir Leicester þeir eru. Þetta er Manchester United og ætti ekki að vera að keppa um að ná fjórða sæti,“ sagði Paul Merson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert