Frábærar fréttir fyrir meistarana

Leroy Sané æfði með City í dag eftir fimm mánaða …
Leroy Sané æfði með City í dag eftir fimm mánaða fjarveru. AFP

Leroy Sané, sóknarmaður enska knattspyrnufélagsins Manchester City, er byrjaður að æfa á nýjan leik með liðinu. Sané hefur ekkert spilað með City í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni en skaddaði liðbönd í hné í leik gegn Liverpool um enska samfélagsskjöldinn í byrjun ágúst á síðasta ári.

Sané æfði af fullum krafti með Englandsmeisturunum í dag en hann er 22 ára gamall. Það er stíft leikplan fram undan hjá City en liðið mætir Manchester United í seinni leik liðanna í enska deildabikarnum á morgun, Tottenham í ensku úrvalsdeildinni um helgina og loks West Ham um þar næstu helgi, einnig í ensku úrvalsdeildinni.

Sané gekk til liðs við City frá þýska fyrstudeildarliðinu Schalke í ágúst 2016 en City borgaði rúmlega 45 milljónir punda fyrir sóknarmanninn. Hann hefur spilað 134 leiki fyrir City þar sem hann hefur skorað 39 mörk og lagt upp önnur 45. Hann var valinn besti ungi leikmaður úrvalsdeildarinnar tímabilið 2017-18.

mbl.is