Inter staðfestir kaupin á Dananum

Christian Eriksen er orðinn leikmaður Inter Mílanó.
Christian Eriksen er orðinn leikmaður Inter Mílanó. AFP

Ítalska knattspyrnufélagið Inter Mílanó tilkynnti rétt í þessu að það hefði gengið frá kaupum á danska landsliðsmanninum Christian Eriksen frá enska félaginu Tottenham Hotspur.

Samningaviðræður hafa staðið yfir mestallan janúarmánuð en Eriksen fór í læknisskoðun hjá ítalska félaginu í gær eftir að niðurstaða hafði fengist varðandi kaupverðið sem er talið vera í kringum 17 milljónir punda.

Eriksen er 27 ára gamall, fæddur í Middelfart í Danmörku og lék með staðarliðinu þar til þrettán ára aldurs þegar hann fór til OB í Óðinsvéum. Ajax krækti í hann árið 2008, sextán ára gamlan, og þar var Eriksen í fimm ár, eða þar til Tottenham keypti hann af hollenska félaginu í ágúst 2013 fyrir 11 milljónir punda. Eriksen vann danska meistaratitilinn með Ajax þrjú ár í röð, frá 2011 til 2013, og var þá samherji Kolbeins Sigþórssonar í liðinu tvö síðari árin.

Eriksen hefur frá árinu 2013 spilað 226 leiki fyrir Tottenham í úrvalsdeildinni og skorað í þeim 51 mark, og samtals gert 69 mörk í 305 mótsleikjum fyrir félagið. Honum tókst ekki að vinna titla með Lundúnaliðinu en lék með því úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu gegn Liverpool síðasta vor.

Þá hefur Eriksen leikið 95 landsleiki fyrir Danmörku og skorað í þeim 31 mark. Hann er sjöundi markahæsti leikmaður danska landsliðsins frá upphafi og er þrátt fyrir að vera aðeins 27 ára orðinn sá níundi leikjahæsti frá upphafi.

mbl.is