Snýr hann aftur til Manchester United í sumar?

Alexis Sánchez í leik með Inter í vetur.
Alexis Sánchez í leik með Inter í vetur. AFP

Útlit er fyrir að Alexis Sánchez, knattspyrnumaður frá Síle, snúi aftur til Manchester United í sumar eftir lánsdvöl hjá Inter Mílanó á Ítalíu þar sem lítið hefur gengið hjá kappanum.

Ole Gunnar Solskjær knattspyrnustjóri United sagði á fréttamannafundi fyrir hádegið að Sánchez myndi koma aftur í raðir félagsins í sumar og sýna öllum hvað í honum búi í raun og veru.

United keypti Sánchez af Arsenal í janúar 2018 og Henrikh Mkhitaryan fór í staðinn til Lundúnafélagsins. Sánchez náði aðeins að skora þrjú mörk í 32 deildarleikjum fyrir United og var síðan lánaður til Inter í haust. Þar hefur hann aðeins komið við sögu í fjórum leikjum og skorað eitt mark. Sánchez, sem er 31 árs gamall, skoraði hins vegar 60 mörk fyrir Arsenal í 122 leikjum í úrvalsdeildinni á þeim fjórum árum sem hann lék með liðinu, og þar áður 39 mörk í 88 deildarleikjum fyrir Barcelona.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert