Vill ólmur fara til Manchester United

Jack Grealish.
Jack Grealish. AFP

Knattspyrnumaðurinn Jack Grealish ætlar sér að fara til Manchester United í sumar en Englendingurinn hefur verið að spila gríðarlega vel fyrir nýliða Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni í vetur.

Engar viðræður hafa átt sér stað á milli félaganna og kom aldrei til greina að Grealish myndi færa sig um set í félagsskiptaglugganum í janúar en samkvæmt heimildum Goal.com ætlar sóknarmaðurinn að finna sér nýtt félag í sumar.

Hann er búinn að skora sjö mörk og leggja upp fimm fyrir nýliðana í vetur en Aston Villa er í 17. sæti, stigi fyrir ofan fallsæti. United er sagt vilja kaupa sóknarsinnaðan leikmann en mikil óvissa er með framtíð Paul Pogba. Frakkinn hefur verið mikið meiddur á leiktíðinni og gæti róið á önnur mið eftir tímabilið.

mbl.is